Færsluflokkur: Bloggar

Takk fyrir mig

Eftir smá spark í rassinn frá góðri vinkonu þá ákvað ég að slá til og skrá mig í Stjörnuþjálfun Smartlands. Ég hélt að þetta yrði bara eins og hver annar leikur á facebook og ég myndi auðvitað ekkert komast í lokahópinn. En viti menn, pósturinn frá Mörtu Maríu kom og ég var ein af 20 sem voru boðaðar í viðtal, en aðeins fimm kæmust í lokahópinn.

Mér fannst þetta ótrúlega stór og erfið ákvörðun. Ég vissi að ef ég myndi fara í þetta viðtal þá yrði ég að komast alla leið. Keppnismanneskjan í mér myndi ekki sætta sig við að mæta í viðtal og „tapa“ þ.e. ekki komast áfram. Ég þekki líka vini mína og fjölskyldu og var handviss um að minn vinaher myndi gera allt sem þau gætu til að fleyta mér áfram. Ég tók því mjög vel ígrundaða ákvörðun, talaði við fólkið mitt og ráðfærði mig við marga sem ég lít upp til. Eftir smá umhugsun og fullt af góðum ráðum frá góðu fólki þá ákvað ég að láta slag standa. Vinir mínir og fjölskylda stóðu sig eins og hetjur í „LIKE“ keppninni og ég svo ótrúlega þakklát ykkur öllum sem hjálpuðu mér að fá rúmlega 600 „LIKE“ án ykkar hefði ég ekki fengið þetta frábæra tækifæri.

Ég var algjörlega staðráðin frá byrjun að leggja mig 150% fram í þetta verkefni. Þessa þrjá mánuði ætlaði ég að einbeita mér að sjálfri mér, hætta öllu djammi og djúsi og koma mér aftur í fyrra stand. Ég spilaði handbolta í mörg ár, hætti fyrir rúmum þremur árum. Eftir að ég hætti þá var ég dugleg að halda mér í formi og hljóp hálft maraþon fyrstu tvö árin. Ég flutti svo til Danmerkur í skiptinám í eitt ár. Þetta ár er eitt besta ár lífs míns, en hafði það í för með sér að gleðin var meira við völd en hollt líferni. Mig langaði líka að prófa eitthvað nýtt, nýja stöð, nýjan kennara og nýja tíma.

Þessar 12 vikur hafa verið frábærar. Ég er komin í mitt fyrra form, ef ekki betra. Ég er farin að hlaupa hraðar, 10 km. eru ekkert mál og nú mun ég bara bæta við. Vöðvarnir eru mætti til leiks aftur og ég ætla aldrei að detta aftur í þá gryfju að hætta að lyfta. Mér líður frábærlega, hef kynnst yndislegu fólki og veit upp á hár hvað þarf til að vera í topp-formi.

Anna Eiríks- Takk fyrir alla þjálfunina. Hver einn og einasti tími var frábær og skemmtilegur og í þessar tólf vikur voru ekki neinir tímar eins. Þú hafðir alltaf trú á að mér myndi takast þetta og án þíns stuðnings hefði ekkert af þessu gerst. Ég hlakka til að koma á nýtt námskeið í janúar. Takk fyrir mig.

Vaka- Hjólatímarnir hjá þér voru geggjaðir, ég hlakkaði alltaf til að mæta á fimmtudögum til þín og skella mér á hjólið. Litlu fróðleiksmolarnir þínir í lok hvers tíma voru ómetanlegir. Takk fyrir mig.

Marta María- Takk fyrir að vera fabjúlöss og halda utan um okkur í þessar 12 vikur. Takk fyrir allar reddingarnar og peppið. Takk fyrir að gefa mér þetta frábæra tækifæri sem ég verð ævinlega þakklát fyrir. Þú ert algjör snillingur.

Fab 5- Takk fyrir alla samveruna, þið eruð allar yndislegar og það var svo gott að geta talað við ykkur um allt og ekkert. Án ykkar þá held ég að enginn myndi nenna að tala við mig lengur. Ómetanlegt að geta talað um allt þetta „leiðinlega“ við ykkur svo annað fólk fengi ekki ógeð af þessum umræðum. Þetta 12 vikna ævintýri hefði ekki verið eins án ykkar.

Ég hefði aldrei getað þetta án stuðnings frá mínum nánustu. Mamma og pabbi voru frábær og studdu við bakið á mér alla leið. Það var eldaður hollur matur í öll mál á heimilinu og litli bróðir er meirað segja orðinn meistarakokkur þegar kemur að því að elda kjúkling og grænmeti. Ég á ekki bíl og þurfti að koma mér upp í Hreyfingu 4 sinnum í viku, ég hefði aldrei getað það ef mamma hefði ekki verið svona mikill nagli og hjólað í vinnuna í hvaða veðri sem er, bara svo ég gæti fengið bílinn til að fara á æfingu. Takk fyrir að styðja við bakið á mér. Þið eruð frábær.

Elsku stelpur, takk fyrir að vera frábærar. Þið vitið hverjar þið eruð.

Þá er þessum langa þakkarpistli lokið. Leyfi lokatölunum að fylgja með. Ég hefði aldrei trúað að það væri hægt að ná svona góðum árangri á aðeins 12 vikum. En með réttu mataræði og góðri hreyfingu þá er allt hægt og ég náði öllum mínum markmiðum og gott betur. Nú er ég búin að setja mér ný markmið sem ég hlakka til að takast á við.

Lokatölurnar: -10.3kg , -8.1% í fitu og -41 cm í heildina.

Ég vona að þið njótið aðventunnar og eigið gleðileg jól.

Takk fyrir mig!


Himnesk kvöldstund

Á köldum nóvember eftirmiðdegi er fátt betra en að skella sér í Bláa lónið. Okkur stelpunum í stjörnuþjálfun var boðið í Bláa lónið um daginn. Við vorum alveg í skýjunum þegar við héldum að við værum bara á leiðinni í Bláa lónið eins og maður hefur svo oft gert en þegar leið á kvöldið datt andlitið gjörsamlega af okkur, Bláa lónið býr yfir mörgum vel geymdum leyndarmálum. Það var tekið ótrúlega vel á móti okkur og við dekraðar í bak og fyrir heila kvöldstund.

Við byrjuðum á því að fá einka VIP klefa hver fyrir sig. Svo var haldið niður á dekursvæðið þar sem við fengum hvítvín, sushi, osta, jarðaber, kaffi og súkkulaði sem við gæddum okkur á yfir ljúfum tónum og arineld. Við nutum þess að slappa af á meðan snyrtifræðingur frá Bláa lóninu greindi húðina okkar og hver og ein fékk fræðslu aðlagaða að sinni húð. Næst var hver og ein kölluð út í lón og þar fengum við klukkutíma nudd og skrúbb. Fyrst vorum við skrúbbaðar með salt og kísil skrúbbi í bak og fyrir og svo dregnar út í lónið á flotdýnum og þar fengum við nudd. Þetta var algjörlega himneskt og ég get fullyrt að húðin hefur aldrei verið mýkri en eftir þessa meðferð. Veðrið lék við okkur, logn og stjörnubjart, ég vildi helst að tíminn myndi stöðvast í smá stund. Svo var haldið inn þar sem arineldurinn beið okkar, ljúf tónlist og enn fleiri maskar og skrúbbar. Við vildum ekki að kvöldið tæki enda svo við slöppuðum af, spjölluðum og nutum langt fram á kvöld.

Á leiðinni heim vorum við leystar út með vörum frá Blue Lagoon. Þessar vörur eru frábærar. Nú er ég búin að nota þær í næstum 2 vikur og húðin mín hoppar af kæti. Við fengum hreinsilínuna, krem og skrúbb. Það er svo gott að dekra við húðina, sérstaklega í þessum mikla kulda sem herjar á okkur núna. Blue Lagoon vörurnar myndu koma vel út í pakka undir jólatréð. Ef að ykkur langar að dekra vel við einhvern sem ykkur þykir vænt um þá mæli ég hiklaust með VIP aðgangnum í Bláa lóninu og nuddinu, þið munið ekki sjá eftir því.


Bara tvær vikur eftir

Ótrúlegt hvað tíminn líður alltaf hratt, hvað þá þegar maður er að gera svona skemmtilega hluti eins og ég er að gera þessa dagana. Við fórum í mælingu eftir námskeið nr. 2 og það er alltaf gaman að sjá árangurinn svart á hvítu.

Frá 12. september er ég búin að missa 5% í fitu, 14 cm yfir mittið, 14 cm yfir mjaðmirnar, 3 cm yfir lærin og 2 cm á höndunum á sama tíma eru 5,5 kg farin. Það gefur mér mjög mikið að fara í þessar mælingar og sjá að fituprósentan lækkar og cm fjúka. Eins og ég hef sagt áður þá hefur alltaf og mun alltaf vera þungt í mér pundið. Þess vegna finnst mér mikilvægt að fylgjast með öðrum mælikvörðum en ekki bara tölunni á vigtinni, sem segir alls ekki allan sannleikann. Ég er orðin svo miklu sterkari eftir þessar 10 vikur og það eru engin ný fræði að vöðvar eru jú þyngri en fita. Ég hvet ykkur til að mæla ykkur mót við þjálfara og fá hann til að mæla ykkur, ekki bara stíga á vigtina. Það er svo ótrúlega margt sem getur breyst þó að vigtin standi í stað.

Í dag lýkur meistaramánuðinum formlega en hann er búinn að vera í gangi í 30 daga. Þessa 30 daga ákvað ég að taka út allt glútein, allan sykur og annað þess háttar. Þetta var ekki það mikil breyting hjá mér þar sem ég var eiginlega búin að sneiða hjá þessu öllu síðan Stjörnuþjálfunin hófst. Það kom mér á óvart hversu einfalt það var að sneiða fram hjá öllu brauði, hrísgrjónum og þess háttar. Meistaramánuðurinn gekk bara nokkuð vel hjá mér þegar á heildina er litið, ég er farin að taka hörfræolíu alla morgna og nota tannþráð öll kvöld sem er stórsigur. Ég hlakka samt ótrúlega mikið til að fá mér hagragraut í fyrramálið en ég er búin að sakna hans frekar mikið þessa 30 daga. Í staðinn fyrir hafragrautinn þá fékk ég mér graut með chiafræjum, sem er reyndar líka mjög góður. En það er bara eitthvað svo ótrúlega notalegt við að fá sér heitan og góðan hafragraut á morgnanna.

Ég er frekar leið yfir því að ferðalaginu hjá okkur fimm fer að ljúka bráðum, þetta er búið að vera svo ótrúlega skemmtilegt ævintýri. Við hvetjum hvor aðra áfram og allar eru svo jákvæðar og skemmtilegar. Anna Eiríks er yndislegur þjálfari sem ég myndi vilja æfa hjá á hverjum degi alla mína ævi. Marta hvetur okkur áfram með fullt af fróðleik og er alltaf uppfull af sinni smitandi orku sem virðist aldrei tæmast. Ég mun sakna þess að setjast niður á Krúsku alla fimmtudaga eftir æfingu og spjalla um allt og ekkert. En eins og við höfum svo oft sagt “þetta er bara byrjunin” ☺


Litlu sigrarnir

Að setja heilsuna í fyrsta sæti er ekki spretthlaup. Þetta er langhlaup sem að stendur yfir alla ævi. Þetta er skemmtilegt og krefjandi verkefni. Við fáum bara einn líkama og það er okkar að hugsa vel um hann.

Áður en námskeiðið hjá Önnu hófst þá setti ég mér fullt af markmiðum, sum stór en önnur minni. Það er ótrúlegt hvað það gefur manni mikinn auka kraft að ná markmiðunum sínum. Markmiðin sem ég setti mér í byrjun eru að detta í hús eitt af öðru. Það er ótrúlega skemmtilegt að setjast niður og setja sér ný og enn hærri markmið nú þegar það eru rúmlega 4 vikur eftir af námskeiðinu.

Ég er búin að ná markmiðunum mínum í hlaupunum, en þá er það eina í stöðunni að setja sér hærri markmið. Ég er búin að þyngja lóðin hjá mér nokkuð og finn hvernig styrkurinn verður meiri í hverri viku. Meistaramánuðurinn gengur vel, sum markmið sem ég setti mér ganga vel en önnur ekki eins vel. En þetta er allt á réttri leið.

Ég mæli hiklaust með því að setja sér markmið því það er svo yndisleg tilfinning að ná markmiðunum sínum.

Mig langar líka til þess að nýta tækifærið og hvetja alla til að kaupa Neyðarkallinn um helgina. Björgunarsveitafólk um land allt mun selja kallinn um helgina. Salan á Neyðarkallinum er mjög mikilvæg fjáröflun hjá Björgunarsveitunum og margt lítið gerir eitt stórt.


Meistari í mánuð

Næstu 30 daga ætla ég að taka þátt í meistaramánuðinum og einbeita mér að því að vera meistari í eigin lífi. Meistaramánuðurinn snýst um að setja sér háleit markmið þegar kemur að mataræði, hreyfingu, vinnunni, skólanum, einkalífinu og þegar kemur að því að rækta andann. Ef að við reynum að gera eitthvað í 30 daga þá eru meiri líkur á því að við munum halda því áfram þegar meistaramánuðinum lýkur. Ég er búin að setja mér háleit markmið, sum þeirra eru erfið og krefjandi en önnur mjög einföld eins og t.d. að nota alltaf tannþráð á kvöldin og taka hörfræ olíu á morgnanna.

Ég hvet alla til að taka þátt í Meistaramánuðinum og setja sér ný og ögrandi markmið. Ég hlakka mikið til að takast á við næstu 30 daga.

Hér er heimasíða Meistaranna
http://www.globalchampionmonth.com/

Hér finnur þú Meistarana á facebook
https://www.facebook.com/meistaramanudur

Gangi ykkur vel elsku Meistarar


Sterkari og fljótari

Nú erum við komnar inn í sjöttu vikuna og námskeiðið sem sagt hálfnað. Æfingarnar verða bara skemmtilegri og skemmtilegri vegna þess að formið verður betra með hverjum deginum sem líður. Ég finn fyrir auknum styrk, ég er farin að geta fleiri armbeygjur, lyfta þyngri lóðum, hlaupa hraðar, hjóla hraðar og hoppa hærra. Það er svo margt gott sem fylgir því að vera í góðu formi og borða holla og næringaríka fæðu. Aukin vellíðan, betri svefn og meiri orka til að takast á við verkefni dagsins. Þetta hljómar allt ótrúlega klisjukennt en þetta er bara svona ótrúlega einfalt.

Á þessum sex vikum sem ég hef verið að æfa hjá Önnu Eiríks upp í Hreyfingu hef ég misst 2,5 kg. Þessi kíló segja bara hálfa söguna því á sama tíma hef ég mist 10 cm í mittinu, 10 cm á mjöðmunum og 1-2 cm á höndum og fótum. Það sem best er ég hef misst 2,5% í fitu. Þessar tölur segja svo miklu meira en kílóin einhverntíman.

Ég ákvað að vera með í þessu átaki til þess að komast aftur í gott form. Ég var búin að slaka á í ræktinni í eitt ár og þurfti spark í rassinn. Það er svo gott að mæta í ræktina og vita að maður er að fara að hitta skemmtilegan hóp undir öruggri leiðsögn þjálfara. Ég mæli eindregið með því að finna sér eitthvað námskeið eða hóptíma sem að maður hefur gaman að því að mæta í. Félagsskapurinn skiptir svo miklu máli.

Ég hef alltaf verið þung og mun alltaf vera óhagstæð í svokölluðum BMI stuðli eða hvað sem þetta nú heitir allt saman. Ég hef oft heyrt setningar eins og „það er þungt í þér pundið“, „þú ert náttúrulega svo stórbeinótt“, „þú ert svo hraust“. Með árunum hef ég lært að líta á þetta sem eitthvað jákvætt. Já, ég er stór, ég er sterk og ég er hraust og er á fullri ferð að komast í mitt besta form. Þetta snýst ekki um að steypa alla í sama mótið. Þetta snýst um að vera besta útgáfan af okkur sjálfum hvort sem það er í vinnunni, skólanum, einkalífinu eða þegar kemur að hreyfingu. Mín markmið voru að geta hlaupið hratt, hoppað hátt, gert fleiri armbeygjur, gengið hratt upp á fjöll og borið þungan farangur á bakinu. Ég er á góðri leið og ætla ekki að hætta núna, þetta er einfaldlega of skemmtilegt.

„Healthy is the New Skinny“


Aukaæfingin skapar meistarann

Fjórða vikan komin á fullt, ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Bara rúmar 8 vikur eftir. Þetta er síðasta vikan á fyrsta námskeiðinu af þremur sem að við fimm förum á. Nýtt námskeið hefst næsta mánudag. Við mætum á skipulagðar æfingar 4x í viku. Anna gefur okkur svo heimaverkefni á þriðjudögum sem er að hlaupa 5 km á tíma. Það er svo gaman að taka svona æfingar þar sem árangurinn er vel mælanlegur. Auðvelt að sjá hvort að maður er að bæta sig eða ekki. Nú er fjórða hlaupið afstaðið og ég er búin að bæta tímann um rúmar þrjár mínútur, komin undir 30 mín, og það er einmitt þar sem ég á að vera. Ég er ótrúlega ánægð með það og ætla bara að halda áfram að bæta mig. Við erum alveg með það á hreinu að það eru aukaæfingarnar sem að skapa meistarann og þess vegna tökum við alltaf aukaæfingu eftir æfingarnar upp í Hreyfingu. Þó að við séum alltaf alveg búnar á því eftir tímana þá hendumst við tvær ferðir í stiganum í Hreyfingu. Þessir stigar eru mjög langir og tröppurnar eru margar, en við látum okkur hafa þetta. Við erum sannfærðar að þetta mun gefa okkur þetta litla extra. Aldrei að vita nema ferðunum fjölgi þegar á líður.

Allt komið á fullt

Nú er vika þrjú senn á enda og allt komið á fullt. Að mæta upp í Hreyfingu er orðinn fastur liður í tilveruna og alltaf jafn gaman að mæta og taka VEL á því með öllum þessum frábæru konum. Fyrsta 4 vikna námskeiðið klárast eftir viku og ég hvet alla sem hafa áhuga að skella sér á næsta námskeið með okkur. Það er hægt að finna allar upplýsingar inn á www.hreyfing.is. Ég lofa að þið munuð ekki sjá eftir því. Hópurinn sem að æfir saman hjá Önnu 4x í viku er að verða ótrúlega þéttur og skemmtilegur og við erum duglegar að hvetja hvor aðra áfram. Margar sem að geta hreinlega ekki hætt og ætla að halda áfram á næsta námskeið. Æfingarnar verða bara skemmtilegri og skemmtilegri því maður ræður betur og betur við þær og getur farið að taka meira á. Ég tek harðsperrunum fagnandi á hverjum morgni vitandi að ég tók vel á því á æfingunni kvöldið áður.

Líkamræktarstöðin Hreyfing hefur farið langt fram úr mínum björtustu vonum, þar er allt til fyrirmyndar frá A-Ö. Innifalið í námskeiðinu er dekurkvöld. Á miðvikudagskvöldið tókum við rosalega skemmtilega og auðvitað erfiða æfingu hjá Önnu og það var yndislegt að láta líða úr sér í Blue Lagoon SPA eftir æfinguna. Þar fengum við herðanudd, fótanudd, fórum í gufuna, djúpsjávarpottinn o.s.frv. Hrein dásemd. Það er svo sannarlega hægt að dekra við sig á annan hátt en með góðum mat.

Við fimm fræknu förum alltaf saman að borða eftir æfingar á fimmtudögum. Leiðin liggur alltaf á Krúsku á Suðurlandsbraut. Þar er maturinn hreinn unaður og ég veit ekkert betra en að koma þangað sársvöng eftir æfingu og gæða mér á kræsingunum sem eru þar á boðstólnum. www.kruska.is.

Ég vona að þið eigið góða viku ☺


Setja hreyfingu í 1. sætið

Í önnum hversdagsins er hægara sagt en gert að setja hreyfingu í fyrsta sætið. Öll erum við að reyna að standa okkur vel í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur. Ég veit að það eru fleiri en ég sem kannast við þá tilfinningu að það eru hreinlega aldrei nógu margir klukkutímar í sólarhringnum til að klára öll verkefnin sem bíða.

Þegar ég æfði handbolta voru oftast æfingar milli kl. 18 og 20. Þessi tími var heilagur og allir í kringum mig vissu að það var ekki hægt að plana neitt með Evu fyrr en eftir 20. Vinkonur mínar voru alltaf mjög skilningsríkar og höfðu hittinga á dögum þegar það var frí hjá mér á æfingum eða bara eftir kl. 20. Kvöldmaturinn á heimilinu hliðraðist til eða fékk bara að standa á hellunni þangað til ég kom heim. Það skipti ekki máli hvað ég var að gera ég einfaldlega henti því frá mér og skundaði á æfingu.

Þegar ég hætti í handboltanum hugsaði ég með mér hvað fólk væri eiginlega að gera milli kl. 18 og 20. Eru ekki allir að hreyfa sig þá? Fyrsta hálfa árið gekk vel. Ég hélt mér í rútínunni að æfa alltaf milli kl. 18 og 20. En svo byrjaði ballið. Verkefnin byrjuðu að hlaðast upp. Maður hætti að setja sig og sína hreyfingu í fyrsta sætið. Fundir, hittingar, vinna o.fl. fór að ryðjast fram fyrir hinn heilaga ræktartíma.

Nú eru tvær vikur búnar í átakinu. Mér líður ótrúlega vel og finn hvernig stykurinn og formið verður betra með hverjum deginum sem líður. Ég er aftur byrjuð að setja mig og mína hreyfingu í fyrsta sætið. Þegar klukkan slær hálf sex þá er ég mætt í ræktina og farin að taka á því. Allt annað þarf bara að bíða, og viti menn verkefnin eru þarna þegar ég er búin að púla og svitna, og það sem meira er ég er miklu betur í stakk búin til að takast á við þau. Mér finnst eins og ég hafi fengið auka klukkutíma í sólarhringinn. Það er alltaf brjálað að gera en það er ekki til í dæminu að skrópa á æfingu og mér finnst það ÆÐISLEGT. Hinn heilagi ræktartími er aftur mættur á svæðið. Ef að við einsetjum okkur það ekki að mæta í ræktina, eða hvaða hreyfingu sem er þá verður ekkert úr því. Öll verkefnin sem bíða okkar á hverjum degi eiga það til að éta upp tímann og þegar dagur er að kvöldi kominn var barasta enginn tími fyrir ræktina þann daginn. Klukkutíminn minn í Hreyfingu er hápunktur dagsins. Æfingarnar eru svo fjölbreyttar og skemmtilegar og það er aldrei þurr þráður á manni þegar maður gengur út.

Það eru engar töfralausnir í þessu, þetta snýst allt um skipulag. Ég hvet alla til að finna sinn heilaga ræktartíma. Ég lofa að með því munuð þið græða tíma því við erum miklu betur undirbúin undir verkefni dagsins.


Það gerist ekkert af sjálfu sér


Ég og fjórar aðrar dívur vorum valdar úr stórum hópi umsækjenda til að taka þátt í 12 vikna samstarfsverkefni Smartlands og Hreyfingar. Við erum á námskeiði hjá Önnu Eiríksdóttur sem heitir Stjörnuþjálfun. Fyrsta vikan var mjög viðburðarík og skemmtileg. Námskeiðið byggist upp á 4 skipulögðum æfingum í viku upp í Hreyfingu auk einnar skyldu æfingar sem við gerum sjálfar. Hver og ein getur svo ákveðið hvernig hún hagar síðustu 2 dögunum í vikunni. Ég hef aldrei áður æft í Hreyfingu. Hreyfing kom mér skemmtilega á óvart, þar er frábært að æfa, öll aðstaða og viðmót starfsmanna er til mikillar fyrirmyndar.

Á mánududögum förum við á svokallaða eftirbrunaæfingu, sem snýst um það að taka mjög vel á því og sjokkera líkamann til þess að brennslan verði sem mest í tímanum sem og eftir tímann. Á þriðjudögum er mótunaræfing. Báðar þessar æfingar fara fram í venjulegum sal með lóð og palla. Á fimmtudögum förum við í spinning. Ég hef farið í marga spinning tíma í gegnum ævina, bæði á Ísland og í Danmörku. Þessi spinning tími er ekki líkur þeim sem ég hef prófað áður. Við erum með púlsmæla á okkur sem við vinnum eftir. Þetta gerir okkur kleift að fylgjast betur með átökunum. Mér finnst þetta algjör snilld og maður fær mikið meira út úr tímanum fyrir vikið. Á laugardögum er svo æfingin í heitum sal. Vikulega heimaverkefnið er að hlaupa 5 km. á tíma. Það verður forvitnilegt að fylgjast með hvort ég eigi eftir að bæta tímann á þessum 12 vikum.

Allir tímarnir eru frábærir og ég hlakka alltaf mikið til að mæta upp í Hreyfingu og taka vel á því. Anna er frábær þjálfari og sér til þess að við tökum vel á því. Mataræðið skiptir miklu máli og oft sagt að mataræðið sé 80% á móti þjálfuninni. Við fáum frábæra matseðla frá Ágústu Johnson sem eru byggðir upp þannig að hver dagur inniheldur 1500 kaloríur. Uppskriftirnar eru einfaldar og rosalega bragðgóðar. Maður er alltaf svo fastur í sömu gömlu uppskriftunum svo það er frábært að fá nýjar og ferskar hugmyndir. Mikilvægast er að skipuleggja sig þegar kemur að mataræðinu þ.e. að vera með næsta dag tilbúinn kvöldinu áður. Þannig verður allt miklu léttara.

Við fórum í nærfatamyndatöku í vikunni. Hin svokallaða “fyrir” mynd. Við fengum dásamlega falleg nærföt frá MISTY. Ég hvet alla til þess að kíkja á dömurnar á Laugavegi 178 og næla sér í falleg nærföt fyrir veturinn. Þar fáið þið frábæra þjónustu hjá starfsmönnum sem eru með allt á hreinu þegar það kemur að nærfötum og öðru tilheyrandi.

Það gerist ekkert af sjálfu sér, svo mikið er víst. Það þarf að hafa fyrir öllu í lífinu og góð heilsa er eitthvað sem allir ættu að vera tilbúnir að leggja mikið á sig til að ná. Gott er að minna sig daglega á að “mitt er valið”. Við stöndum frammi fyrir vali á hverjum degi, ætlum við að lifa heilsusamlegu lífi eða ekki. Ég hlakka mikið til að takast á við þessa áskorun næstu 11 vikurnar. Næstu 11 vikurnar mun ég setja mig og mína heilsu í fyrsta sætið. Þetta mun örugglega vera erfitt á köflum en þá er mikilvægt að hugsa til þess hvað ég mun uppskera að lokum. Ég hef sett mér há markmið næstu vikurnar og ég ætla að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að ná þeim.

Ég vona að þið eigið góða og heilsusamlega viku ☺

Eva Margrét


Um bloggið

Eva Margrét Kristinsdóttir

Höfundur

Eva Margrét Kristinsdóttir
Eva Margrét Kristinsdóttir
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...img_5532

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband